Vörubílstjórar hafa rætt um að loka höfuðborgarsvæðið af, fái þeir ekki skýr svör á fundi sínum með fulltrúum fjármálaráðherra næstkomandi þriðjudag. Aðgerðin gengur undir nafninu „stóra stopp“ og felst m.a. í því að loka aðalsamgönguæðum til og frá höfuðborgarsvæðinu, auk einhverra gatnamóta. Er þá ekki rætt um tímabundna lokun, líkt og áður.
Aðgerðir fara eftir svörum
Spurður um aðgerðina segir Sturla Jónsson, talsmaður vörubílstjóra, að hún hafi vissulega verið rædd innan hópsins en engin tímasetning eða eiginleg útfærsla hafi verið ákveðin. „Menn vilja fá svör og svo verður séð til hvað verður gert. Það fer eftir því hvernig svörin verða,“ segir Sturla sem vill fá tímasetningar á aðgerðir stjórnvalda.