Starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hefur fækkað frá því í fyrra og framlög til hennar standa hlutfallslega í stað. Þetta er þvert á það sem saksóknari efnahagsbrota kallaði eftir síðastliðið sumar til að deildin gæti verið samkeppnishæf í því umhverfi sem hún starfar í. Þar starfa nú 15 manns en þeir voru 17 um mitt ár í fyrra. Framlög til deildarinnar fara úr 110 milljónum í 130 milljónir milli ára sem er aukning um 18 prósent. Á sama tíma hefur kostnaður vegna embættis ríkislögreglustjóra aukist úr 1.392 milljónum í 1.673 milljónir samkvæmt fjárlögum, eða um 20 prósent.
Vildi tvöfalt fleiri starfsmenn
Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra, sagði í viðtali hér í blaðinu 20. júní í fyrra að deild hans væri ekki samkeppnishæf við það umhverfi sem hún starfaði í. Hún væri of fámenn og skorti fjármagn. Til að ástandið yrði viðunandi taldi Helgi Magnús ekki óraunhæft að miða við tvöföldun á starfsmannafjölda á ekki mjög löngum tíma. Orðrétt sagði hann að „þegar hvítflibbar eiga í hlut og það fréttist að þeir hafi jafnvel stungið ævitekjum verkamannsins undan skatti skapast oft engin opinber umræða um málið. Það er þetta sem ég vil að fólk vakni til vitundar um.“ Tíu mánuðum síðar hefur fækkað um tvo í deildinni og framlög til hennar af fjármunum sem renna til ríkislögreglustjóra eru hlutfallslega þau sömu.