Það sem af er þessu ári hefur alþjóðadeild ríkislögreglustjóraembættisins sent lögregluembættum hér á landi 11 barnaklámsmál til meðferðar, þrjú eftir ábendingar frá Barnaheillum og átta eftir ábendingar frá alþjóðlegu lögreglustofnununum Interpol og Europol og bandarísku alríkislögreglunni, FBI.
„Við rannsóknir erlendis á barnaklámi hefur lögreglan séð að eigendur eða notendur íslenskra ip-talna hafa hlaðið niður barnaklámi. Ef um brot á íslenskri löggjöf er að ræða sendir ríkislögreglustjóri viðkomandi lögregluembætti málið til rannsóknar,“ segir Gná Guðjónsdóttir í alþjóðadeild ríkislögreglustjóra.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri segir að verið sé að kanna hvort breyta þurfi lögum vegna slíkra rannsókna lögreglunnar sem meðal annars gætu falið í sér notkun tálbeitu. „Ég tel nauðsynlegt að forvirkar rannsóknir verði teknar upp hér á landi.