Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, fer í opinbera heimsókn til Kína í dag. Í fréttatilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu segir að ferðin sé farin til þess að endurgjalda heimsókn starfsbróður ráðherra frá því í júní í fyrra. Ráðherra mun heimsækja ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála og aðstoðarráðherra utanríkisviðskiptamála. Auk formlegra samskipta við stjórnvöld verða ýmis íslensk fyrirtæki heimsótt í Hong Kong, Zhongshan og Beijing.
Tilgangur ferðarinnar er m.a. að stofna til frekari viðræðna við kínversk stjórnvöld um sameiginlega viðskiptahagsmuni og treysta viðskiptatengsl Íslendinga og Kínverja.
Í tilkynningunni segir að „í ljósi ástands mannréttindamála í Kína, og ekki síst ástandsins í Tíbet, mun viðskiptaráðherra taka þau mál upp í viðræðum sínum við kínverska ráðamenn. "
Þá segir að íslensk stjórnvöld hafi áður tjáð Kínverjum þá afstöðu sína að það sé þjóðréttarleg skylda Kínverja að virða mannréttindi í Tíbet. „Þessi afstaða verður frekar áréttuð í ferðinni og áhersla lögð á hve órjúfanlegum böndum viðskiptafrelsi, upplýsingafrelsi og mannréttindi eru tengd. Af því tilefni hefur verið óskað eftir sérstökum fundi um mannréttindamál með aðstoðarutanríkisráðherra Kína," segir í fréttatilkynningunni.