Hallgrímskirkjuturn klæðist vinnupöllum á ný

Hallgrímskirkja
Hallgrímskirkja mbl.is/Golli

Margir hafa eflaust tekið eftir því að vinnupallar skríða nú hærra og hærra upp eftir veggjum Hallgrímskirkjuturns. Ástæða þess er sú að umfangsmikil viðgerð á steypuskemmdum í turninum er að hefjast. Að sögn Jóhannesar Pálmasonar, formanns sóknarnefndar Hallgrímskirkju, hefur lengi verið unnið að fjármögnun þessarar viðgerðar og því mjög ánægjulegt að hún sé að komast í gang.

Vinnupallarnir munu teygja sig alla 74 metrana upp á topp og viðgerð fara fram á öllum turninum. Gert er ráð fyrir að viðgerðin taki 12-18 mánuði og því ljóst að kirkjan verður í þessu dulargervi eitthvað fram á næsta ár.

Skemmdirnar sem hér um ræðir segir Jóhannes ekki vera alkalískemmdir, heldur séu þær mestmegnis veðrunar- og frostskemmdir. Skoðunarferðir með körfubílum fyrr í vor hafi sýnt að frostskemmdir séu ekki síst ofan á hinum fjölmörgu stöplum kirkjunnar. Þar sé víða sprungunet.

Gæti kostað 250 milljónir

Jóhannes segir viðgerðina nokkuð kostnaðarsama. Kostnaðaráætlun frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (VST), miðað við verðlag síðasta árs, meti verkið á um 230 milljónir króna en nú sé frekar gert ráð fyrir 250 milljónum. Fjármögnun verksins tókst í samstarfi við ríkissjóð, Reykjavíkurborg og þjóðkirkjuna, en á grundvelli samkomulags við þessa opinberu aðila hefur fé til verksins verið tekið að láni hjá SPRON.

„Ástandið er talið mjög slæmt. Við skoðun hefur komið í ljós að þessi áætlun er síst ofmetin. Óttast er að steypuskemmdir séu jafnvel meiri en talið var. Þeirri spurningu er þó ekki hægt að svara fyrr en hafist verður handa,“ segir Jóhannes.

Þetta er ekki fyrsta viðgerðin á kirkjunni. Árin 1988-1989 fór fram umfangsmikil viðgerð á turnspírunni ofan klukknaports, þar sem um 470 stöplar eru. Skv. upplýsingum frá VST voru þá yfirfarnir 333 stöplar, svo um 140 þeirra gætu verið illa á sig komnir í dag. Sú viðgerð segir Jóhannes að hafi líklega haldið sér nokkuð vel en þó verði ekki hjá því komist að yfirfara hana aftur nú. Þá var einnig gert við báðar álmur kirkjunnar sem ganga til suðurs og norðurs út frá turninum, á árunum 1992-1995, en vitað var að fara þyrfti í turninn sjálfan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert