Ágætis silungsveiði í kuldanum

Sjóbirtingur
Sjóbirtingur mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Hér er allt komið í fullan gang,“ sagði Ragnar Johansen í Hörgslandi í gærkvöldi, en veiðimenn sem luku veiðum í Vatnamótunum við Skaftá um hádegi í gær veiddu 50 sjóbirtinga. „Þeir voru samt nokkuð rólegir – tóku sér góðan tíma í að grilla,“ sagði Ragnar.

Talsverðar ísskarir eru enn á Skaftá en nokkuð hrein renna er með landinu og þar hefur verið að veiðast. Í fyrrakvöld tók að snjóa og var talsvert kóf þegar veiðimenn óku Brunasand í gærmorgun niður á bakkana; Ragnar fylgdi þeim í 30 cm snjó og þurfti að aka eftir GPS-punktum. „Þeir náðu samt nokkrum fiskum,“ sagði hann.

Ekki gekk jafn vel hjá félögunum sem voru í Tungufljóti í Skaftártungu. Þegar þeir vöknuðu í gærmorgun var hríðarbylur og þeir létu eiga sig að kasta á síðustu vaktinni. Þá voru þeir búnir að veiða þrjá. Þeir sáu nokkuð af fiski, meðal annars nokkra sem höfðu skorðað sig milli steina á grunnu vatni og virtust dauðir; þeir tóku þó viðbragð þegar potað var í þá. Hollið á undan þeim lenti í betri skilyrðum og fékk 28.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert