Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 19 ára gamlan karlmann í mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir innbrot og þjófnað í fyrirtæki í Kópavogi í maí á síðasta ári. Maðurinn þvertók fyrir að hafa verið þarna að verki en fingrafar á skúffu í peningakassa, sem opnaður var, reyndist vera fingrafar mannsins.
Stolið var 30 þúsund krónum úr peningakassa í fyrirtækinu og farsíma. Hlutar af fingraförum fundust á peningakassa og var eitt farið á skúffu í kassanum var rakið til mannsins.
Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa verið heima hjá sér umrætt kvöld og farið að sofa nálægt miðnætti en morguninn eftir ætlaði hann að keyra austur á firði til þess að hitta kærustuna sína. Hann hefði aldrei komið í húsið þar sem fyrirtækið er og hefði enga skýringu á því eða hugmynd um hvers vegna fingrafar af honum ætti að geta fundist þar á botni peningakassa.
Hann sagðist þó hafa handleikið slíka kassa þegar hann vann hjá veitingafyrirtæki en þá var farið með slíka kassa út í bæ í tengslum við veislur. Fram kom hins vegar að umræddur peningakassi var keyptur nýr eftir að maðurinn hætti að vinna hjá veitingafyrirtækinu.
Dómurinn segir, að í ljósi þess að manninum hefði ekki með neinum hætti tekist að sýnt fram á neitt, sem styðji frásögn hans um það hvar hann hafi verið staddur þegar innbrotið var framið, þyki mega slá því föstu vegna fingrafarsins, að maðurinn hafi verið staddur í í fyrirtækinu og handfjatlað skúffuna. Sé það hafið yfir allan skynsamlegan vafa, að maðurinn hafi ekki getað átt þarna annað erindi en sem innbrotsþjófur.
Fram kemur í dómnum að maðurinn á ekki að baki neinn sakarferil sem máli skipti og að hann hefur stundað fasta vinnu frá því hann var 15 ára.