Pólskur karlmaður sem er búsettur hérlendis og er eftirlýstur í heimalandi sínu vegna gruns um aðild að morði hefur enn ekki gefið sig fram við lögreglu.
Fram hefur komið að ræðismaður Póllands á Íslandi hafi rætt við manninn í gær sem sagðist ætla að gefa sig fram, enda væri honum umhugað um að koma því á hreint að hann væri ekki á flótta.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu þá getur hún ekkert aðhafst í málinu fyrr en alþjóðleg handtökutilskipun verði gefin út á hendur manninum. Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, er hún væntanleg.