Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Danny Williams, forsætisráðherra Nýfundnalands og Labrador, skrifuðu í dag undir samkomulag um tvíhliða samstarf Íslands og kanadíska fylkisins en Geir er þar í heimsókn.
Að sögn forsætisráðuneytisins er samkomulaginu ætlað að greiða fyrir samráði og upplýsingaskiptum opinberra- og einkaaðila, greiningu á sameiginlegum hagsmunum og leit að hagnýtum samstarfsverkefnum. Þá er stefnt að aukinni samvinnu á sviði menningar, mennta og lista.
Gert er ráð fyrir að stofnuð verði sérstök nefnd sem kanni hvernig hægt verði að efla almenn samskipti Íslands og Nýfundlands og Labrador. Þar verði forgangsverkefni að stuðla að gagnkvæmri fræðslu og iðnþróun, m.a. á sviði sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda, sjávarútvegs og öryggis á hafi.