Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að enginn ágreiningur sé milli ríkisstjórnarflokkanna eða ríkisstjórnar og Seðlabanka um að auka þurfi gjaldeyrisvaraforðann. Sagði Ingibjörg Sólrún mikilvægt, að bankarnir geti, ef þörf krefur, leitað eftir lausafé til Seðlabankans, sem eigi að vera lánveitandi til þrautavara.
Ingibjörg Sólrún var að svara Valgerði Sverrisdóttur, þingmanni Framsóknarflokks, sem vildi vita hvort ágreiningur væri um það innan ríkisstjórnarinnar eða á milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um það hvort bönkunum verði komið til bjargar. Vísaði Valgerður til ummæla, sem ráðherrar og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hafa viðhaft í fjölmiðlum.
Ingibjörg Sólrún sagði, að Seðlabankinn gæti farið ýmsar leiðir, svo sem að skoða lánalínur í bönkum erlendis eða að auka gjaldeyrisvaraforðann. Allt væri þetta til skoðunar og í viðtali við Morgunblaðið hefði seðlabankastjóri sagt að ríkisstjórnin vilji stuðla að því að auka gjaldeyrissjóðinn með lántökum. „Um þetta er enginn ágreiningur milli Seðlabanka og ríkisstjórnar eða annarra aðila," sagði Ingibjörg Sólrún.
Hún sagði, að bankarnir hafi sagt að þeir standi vel og geti endurfjármagnað sig í nokkra mánuði sjálfir. Hins vegar geti komið að því að þeir þurfi á fyrirgreiðslu að halda síðar og að þessu væri unnið.