Ströng löggjöf: Færeyingar sýna fulla hörku

„Harðir dómar í fíkniefnamálum eru ekki einsdæmi í litlum samfélögum sem þurfa sérstaka vernd fyrir fíkniefnum, “ segir Linda M. Hesselberg, saksóknari í Færeyjum, en færeyska réttarkerfið hefur sætt gagnrýni frá Íslandi eftir dóm yfir Íslendingi í Færeyjarétti, en einkum vegna langrar einangrunarvistar sem hann sætti.

Saksóknari í Færeyjum vill gjarnan verja embættið í Færeyjum og skýra fyrir 24 stundum misskilning sem embættið telur að gætt hafi í frásögnum af örlögum Birgis Páls Marteinssonar í Færeyjum.

Lítil samfélög varin

„Fyrirmyndin er sótt til Grænlands, en staðfest var af Hæstarétti í Danmörku að dæma mætti menn til þyngri refsingar í fíkniefnamálum vegna smæðar samfélagsins. Færeyingar sigldu í kjölfarið,“ segir Linda. Gagnrýni á 170 daga einangrunarvist Birgis Páls segir hún byggða á sandi. Það sé ekki rétt að Íslendingurinn hafi verið samfellt í einangrun þennan tíma. Þvert á móti hafi hann verið látinn laus úr eingangrun tiltölulega fljótt, en eftir bréfasmygl úr fangelsinu til lykilvitnis í málinu hafi verið nauðsynlegt að einangra hann aftur.

Saksóknari bendir einnig á að ólíkt því sem sums staðar hafi komið fram hafi ákærði verið yfirheyrður vegna rannsóknarinnar langt fram á þetta ár, síðast 26. mars. „ Það er misskilningur að færeyska lögreglan ástundi að stinga fólki sem á leið hjá í gæsluvarðhald og fleygja lyklinum,“ segir Linda.

Hugsanlega áfrýjað

Það kemur í ljós innan fjórtán daga frá því dómur var upp kveðinn á föstudagskvöld hvort honum verður áfrýjað. Saksóknari í Færeyjum gefur ekki upp afstöðu embættisins. „Lögregluyfirvöld hér geta ákveðið að lýsa því hvort þau vilja fara fram á þyngri dóm ef þau kjósa. En við höfum sent okkar greinargerð til Danmerkur og þar verður ákvörðun tekin,“ segir saksóknari.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert