Harðir á strippinu

„Þetta er kvöld sem löng hefð er fyr­ir hjá Herði og alltaf þetta atriði í lok­in en eft­ir þessa uppá­komu í fyrra þá ákvað fé­lagið að halda þetta ekki í ár. Hins veg­ar voru þarna karl­menn sem tóku sig sam­an og héldu svona styrkt­ar­kvöld í þess­um stíl. Það var einka­sam­kvæmi,“ seg­ir Guðjón Magnús­son, formaður Hesta­manna­fé­lags­ins Harðar, um karla­kvöld sem haldið var í fé­lags­heim­ili fé­lags­ins um helg­ina. Meðal skemmti­atriða var kona sem fækkaði föt­um.

„Það eru skipt­ar skoðanir um þessi kvöld, þetta er búið að vera svona í ára­tugi og alltaf endað á þess­um dag­skrárlið, stuttu strippi,“ seg­ir Guðjón en hann setti inn aug­lýs­ingu fyr­ir karla­kvöld Harðar á vef fé­lags­ins 26. mars síðastliðinn. Henni var seinna breytt þannig að nafn fé­lags­ins var tekið út.

Rúmt ár er síðan fé­lagið varð fyr­ir tölu­verðri gagn­rýni vegna nekt­ar­dans á karla­kvöldi. Í kjöl­far þess skrifaði Stefán Kon­ráðsson, þáver­andi fram­kvæmda­stjóri Íþrótta­sam­bands Íslands, pist­il á heimasíðu sam­bands­ins. Þar seg­ir meðal ann­ars: „Get­ur það verið, að til­gang­ur­inn með herra­kvöld­un­um sé að 2-400 karl­ar fái kynörvun við það að horfa á eina eða tvær stúlk­ur dansa nakt­ar?“

Stefán seg­ir að skila­boðin sem send séu með því séu í raun kven­fyr­ir­litn­ing. Þá seg­ist hann ekki geta látið uppá­kom­ur sem þessa viðgang­ast enda standi hreyf­ing­in fyr­ir for­varn­ir, heil­brigði og góðan fé­lags­anda. „Nekt­ar­dans­ar og allt sem þeim fylg­ir á ekki heima á op­in­ber­um sam­kom­um í okk­ar hreyf­ingu.“

Lín­ey Rut Hall­dórs­dótt­ir, nú­ver­andi fram­kvæmda­stjóri, tek­ur und­ir orð Stef­áns og seg­ir stefnu ÍSÍ ekki hafa breyst í þess­um mál­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert