Nítján ára gamall íslenskur piltur hefur verið dæmdur í árs fangelsi, þar af hálft ár skilorðsbundið, fyrir að kveikja tvívegis í skóla í bænum Struer á Jótlandi ásamt 14 ára gömlum hálfbróður sínum. Eftir að pilturinn hefur afplánað dóminn verður honum vísað úr landi í Danmörku í fimm ár.
Fram kemur á fréttavef Lemvig Folkeblad, að pilturinn hafi flust til Danmerkur í október á síðasta ári til að búa hjá föður sínum og fjölskyldu hans. Blaðið segir, að 14 ára hálfbróðir íslenska piltsins hafi verið óánægður með skólann sinn og bræðurnir hafi tvívegis kveikt í skólanum, í fyrra skiptið 9. febrúar og í það síðara tveimur dögum síðar.
Yngri pilturinn hafði komist yfir lykla að skólanum og fyrst reyndu bræðurnir að kveikja í sófa í samkomusal. Það tókst ekki en þegar piltarnir fóru út um glugga kveiktu þeir í gluggatjöldum og eldurinn barst í loftklæðningu og olli nokkrum skemmdum.
Alls er tjónið á skólanum metið á um 11 milljónir íslenskra króna.