Rannsaka fæðu síldarinnar

Hafrannsóknastofnun er að hefja rannsókn á fæðu íslensku síldarinnar. Þriggja daga leiðangur vegna þess verkefnis verður nú í vikunni á Dröfn RE þar sem síldarslóðir út af vestur- og suðvesturlandi verða rannsakaðar.

Stofnunin segir, að sumargotssíldarstofninn hafi aldrei mælst stærri en síðustu ár. Athuganir á fæðu stofnsins séu hinsvegar nær engar til, einungis rannsóknir frá fyrri hluta síðustu aldar gerðar af Árna Friðrikssyni og fleirum fyrir norðan og norðaustan land. Þær rannsóknir byggðust eingöngu á norðurlandssíld sem var að litlu eða nær engu leyti íslensk sumargotssíld.

Fæðurannsóknir á sumargotssíld séu því tímabærar og nauðsynlegar til að afla frekari þekkingar á vistfræðilegum tengslum nytjastofna við Ísland, ekki síst vegna stækkandi síldarstofns og vestlægari útbreiðslu hans og þar með aukinnar skörunnar við útbreiðslu eggja og lirfa annarra fiskistofna við Ísland.

Rannsóknir á fæðu síldar erlendis benda til þess að fæðuvalið sé breytilegt eftir árstíma, svæðum, milli ára og stærð síldarinnar og fæðugerðirnar geti verið margar s.s. rauðáta, ljósáta, önnur svifkrabbadýr, marflær, fisklirfur, fiskseiði og fiskaegg.

Fyrirhugað er að fara aftur samskonar leiðangur í lok maí á svipaðar slóðir. Verkefnið sem nú fer af stað er nk. forathugun og verður ákvörðun um umfangsmeiri rannsóknir teknar þegar bráðabirgðaniðurstöður liggja fyrir í haust. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert