Refsað fyrir að valda slysum

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt í þremur málum þar sem tveir karlmenn og ein kona voru sakfelld fyrir að valda umferðarslysum með gáleysi. Karlarnir voru báðir dæmdir í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi og annar að auki sviptur ökuréttindum í ár en konan var dæmd í mánaðar skilorðsbundið fangelsi.

Í einu málinu var karlmaður ákærður fyrir að hafa í mars á síðasta ári ekið eftir Þrengslavegi án nægilegrar aðgæslu og varúðar og of hratt miðað við akstursskilyrði, en snjókrap var á veginum og bleyta. Maðurinn missti stjórn á bílnum, sem lenti á öðrum bíl sem kom á móti.

Ökumaður hins bílsins, ung kona, hlaut mikla áverka og hefur verið í endurhæfingu síðan. Þá er hún komin á lyfjameðferð vegna skertrar starfsemi hjartavöðvans.

Í öðru máli var karlmaður dæmdur fyrir að aka í maí á síðasta ári fyrirvaralaust út á Suðurlandsveg í Flóahreppi í veg fyrir annan bíl. Ökumaður þess bíls hlaut áverka á heila, beinbrot og aðra áverka.

Í þriðja málinu var kona dæmd fyrir að aka á gangandi vegfaranda á gangbraut á Selfossi í október. Konan, sem varð fyrir bílnum axlarbrotnaði og hlaut fleiri áverka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert