Virðingarleysi fyrir fjárlögum

Ríkisendurskoðun gagnrýnir harðlega að stofnanir fari ekki eftir fjárlögum, sem …
Ríkisendurskoðun gagnrýnir harðlega að stofnanir fari ekki eftir fjárlögum, sem Alþingi setur. mbl.is/Ómar

Ríkisendurskoðun gagnrýnir enn á ný misbresti í framkvæmd fjárlaga og virðingarleysi   fyrir bindandi fyrirmælum þeirra, sem birtist bæði í hallarekstri og ónýttum fjárheimildum fjölmargra stofnana. Segir stofnunin m.a. að síendurtekin brot gegn lögum og reglum séu ólíðandi og hvetur til þess að forstöðumenn stofnana, sem ekki virða fjárlög, verði áminntir.

Ríkisendurskoðun hefur skilað skýrslu um framkvæmd fjárlaga árið 2007 og ársáætanir 2008. Segist stofnunin ítrekað á undanförnum tveimur áratugum hafa bent á ýmsa misbresti á framkvæmd fjárlaga, virðingarleysi fyrir bindandi fyrirmælum þeirra og almennt agaleysi í rekstri fjölmargra stofnana. Í þessu samhengi hafi stofnunin m.a. vakið athygli á misræmi í ákvörðunum fjárveitingarvaldsins og framkvæmdavaldsins, þ.e. að fjárveitingarvaldið ákvarði umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum hvers árs en forstöðumenn og ráðuneyti taki sér síðan iðulega vald til að auka umfang hennar umfram lögbundnar heimildir.

Þessar og aðrar athugasemdir stofnunarinnar um framkvæmd fjárlaga hafi litlu skilað. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Fjársýslunnar var um fjórðungur fjárlagaliða með halla í árslok 2007. Í heild nam hann um 5,8 milljörðum króna að framlagsliðum slepptum, og jókst um 2,4 milljarða frá 2006. Þá áttu um 70% allra fjárlagaliða ónýttar fjárheimildir í árslok 2007. Slíkar uppsafnaðar heimildir námu alls 21,2 milljörðum að framlagsliðum slepptum, og jukust um 1,2 milljarða frá 2006.

Ríkisendurskoðun vekur sérstaka athygli á því að ekki hefur verið tekið nægilega föstum tökum á því þegar stofnanir lenda í rekstrarvanda. Af þrettán stofnunum sem fóru meira en 4% umfram fjárheimildir árið 2006 og Ríkisendurskoðun fjallaði sérstaklega um í skýrslu sinni um framkvæmd fjárlaga 2006 voru tólf enn með halla umfram þessi mörk í árslok 2007.

Ríkisendurskoðun segir mikilvægt, að ákvæði um ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlausari í gildandi lögum og reglum. Þá er hvatt til þess að ónýttar fjárheimildir, sem ekki stendur til að nota að fullu á nýju ári, verði felldar niður í lokafjárlögum 2007.

Ríkisendurskoðun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert