Rannsókn á meintri nauðgun sem átti sér stað á salerni skemmtistaðar í Reykjanesbæ um liðna helgi verður ekki unnin án þess að aðalvitnið í málinu vinni með lögreglu. Sautján ára stúlka sem tilkynnti nauðgunina aðfaranótt sunnudags ákvað eftir nánari athugun að aðhafast ekki. Lögreglan á Suðurnesjum lítur svo á að það sé mat þess sem fyrir verður hvort brot hafi átt sér stað. Að sögn rannsóknarlögreglumanns metur stúlkan að svo hafi ekki verið í þessu tilviki.
Spurður hvort eitthvað bendi til þess að meintur brotamaður hafi haft áhrif á ákvörðun stúlkunnar segir Jóhannes Jensson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum svo ekki vera og því verði það ekki rannsakað sérstaklega. „Við höfum það sem við vitum um málið frá stúlkunni. Það liggur ekki fyrir hver hafi átt að eiga þarna í hlut, og þetta eru nægilega erfið mál í rannsókn þegar brotaþoli veitir alla aðstoð. Þegar hann gerir það ekki er málið orðið ansi erfitt rannsóknar,“ segir Jóhannes sem útilokar ekki að veitingastaðnum verði veitt áminning fyrir að hleypa sautján ára stúlku inn.