Mikið álag hefur verið á sölufólki Icelandair í morgun og samkvæmt upplýsingum frá Guðjóni Arngrímssyni upplýsingafulltrúa flugfélagsins hafði hvorki tölvu- né símkerfi undan. „Það fór bara allt á hliðina út af ásókninni," sagði Guðjón.
Einn heimildarmaður Fréttavefjar Morgunblaðsins sagði að það mætti halda að öll þjóðin hefði lagst í símann og hringt í Icelandair í morgun. „Það eru 71 á biðlista í símkerfinu og ég kemst ekki í mat," sagði ein afgreiðslustúlka í samtali við Fréttavefinn. Hún bætti því við að fólk kæmist í gegn í símkerfinu en að biðin væri bara löng.
Hvorki Guðjón Arngrímsson né starfsfólk kannaðist við að viðskiptavinir væru óánægðir vegna þess að þeir hefði misskilið auglýsingar um að um 50% afsláttur gilti um uppsafnaða ferðapunkta en ekki verð á ferðunum.
Þess má geta að ferðapunktatilboðið hjá Icelandair gildir fram á föstudag.