Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ítrekaði á Alþingi í dag þá stefnu flokksins, sem mörkuð var á landsfundi í fyrra, að öllum eigi að standa til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til og með háskóla. Sigurður Kári Kristinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að stuðningur við skólagjöld í opinberum háskólum fari vaxandi í samfélaginu.
Talsverður hiti var í umræðu um skólagjöld, sem Björn Valur Gíslason, varaþingmaður VG, hóf umræðuna í byrjun þingfundar. Vísaði Björn Valur í nýlegt viðtal við Sigurð Kára í Fréttablaðinu þar sem hann sem lýsti skoðun sinni á skólagjöldum en Sigurður Kári er formaður menntamálanefndar Alþingis. Þar sagði hann að stjórnarflokkarnir yrðu að taka afstöðu til þess hvort taka eigi upp skólagjöld í opinberum háskólum og hann teldi það sjónarmið njóta sífellt meiri stuðnings í samstarfsflokknum, þ.e. Samfylkingarinnar.
Sigurður Kári sagði, að Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, hefði sett skólanum það markmið að verða einn af fremstu háskólum í heimi. Ætli HÍ að ná því markmiði verði að tryggja að skólinn sitji við sama borð á öllum sviðum og þeir skólar sem hann vill bera sig saman við, þar á meðal tekjuöflunarsviði. Langflestir þeir skólar, sem taldir eru 100 bestu nú, innheimti skólagjöld.
Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði nauðsynlegt að fá úr því skorið hver afstaða Samfylkingarinnar til skólagjalda í opinberum háskólum væri. Sagði Birkir, að framsóknarmenn hefðu staðið á bremsunni gagnvart Sjálfstæðisflokki í þessu máli og alltaf talið að grunnnám í opinberum skólum eigi að vera án skólagjalda.
Katrín Júlíusdóttir sagði að stefna Samfylkingarinnar varðandi skólagjöld væri skýr og las upp úr landsfundarsamþykkt flokksins um að flokkurinn vilji tryggja, að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn og framhaldsnámi við opinbera háskóla. Sagðist hún hafa orðið hissa á að formaður menntamálanefndar væri að túlka stefnu og líðan Samfylkingarinnarmanna „og var ég allsendis ósátt með það svo vægt sé til orða tekið," sagði hún.
Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, sagði að einkaháskólar hér á landi fái að innheimta skólagjöld ofan á fullt opinbert framlag frá ríkinu með hverjum nemanda og standi því betur en ríkisskólarnir. „Ég vil fá að sjá Samfylkinguna standa vörð um það sjónarmið sem við Vinstri-græn höfum verið með, að það skerða eigi framlag til einkaskólanna sem nemur skólagjöldunum til þess að jafnræði sé náð. Öðruvísi náum við ekki jafnræði nema með hugmyndinni um skólagjöld," sagði Kolbrún.