Hrefnuveiðimenn eru byrjaðir að undirbúa veiðar í sumar. Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Félags hrefnuveiðimanna, segir að ekki sé búið að gefa út kvóta en fram hafi komið opinberlega hjá sjávarútvegsráðherra að ekki verði staðið í vegi fyrir hrefnuveiðum fyrir innanlandsmarkað og þeir reiði sig á, að við það verði staðið.
Segir Gunnar, að hrefnuveiðimenn hafi á grundvelli þessa keypt nýja sprengiskutla frá Noregi og lagt í talsverðan kostnað til að undirbúa veiðarnar í sumar. Gunnar segir, að gert sé ráð fyrir að hrefnuveiðibáturinn Njörður KÓ, sem gerður út frá Kópavogi, muni fara til veiða um miðjan maí og verði við veiðar fram í júlí. Bátarnir Dröfn RE og Halldór Sigurðsson ÍS komi síðan til veiða um mitt sumar.
Samið hefur verið við Kjötvinnsluna Esju um að sjá um vinnslu, pökkun og markaðssetningu á kjötinu og segir Gunnar, að veiðimenn geri sér vonir um að salan aukist við þá breytingu.
Á síðasta ári voru veiddar 45 hrefnur, þar af 39 vegna vísindaverkefnis Hafrannsóknastofnunar og 6 í atvinnuskyni. Ekki er gert ráð fyrir vísindaveiðum í ár og hrefnuveiðimenn reikna því með atvinnukvóta.
Aðspurður hvort nóg sé af hrefnu við landið sagði Gunnar að það væri að minnsta kosti niðurstaða Hafrannsóknastofnunar. Hins vegar sé ljóst, að einhverjar breytingar hafi orðið í hafinu á undanförnum árum, ætið virðist vera dreifðara og hrefnan sé því meira á faraldsfæti en áður.