Kreditortið hvarf úr pósti

Póstburðartöskur eru skildar eftir úti á víðavangi.
Póstburðartöskur eru skildar eftir úti á víðavangi.

Íbúar við Sæbraut á Seltjarnarnesi fengu ekki póstinn sinn um vikutíma, frá 26. febrúar til 3. mars síðastliðinn. Að viku liðinni barst póstur fyrir heila viku, þá blautur og rifinn, að því er virðist eftir veru úti undir berum himni.

Konu einni, sem býr við Sæbraut og hafði samband við Morgunblaðið í gær, segist svo frá að sonur hennar hafi búist við kreditkorti og PIN-númeri í pósti frá Europay í þeirri viku. Áður en pósturinn skilaði sér var hins vegar farið að taka út af kortinu í hraðbanka í miðbæ Reykjavíkur, alls 50.000 krónur, áður en tókst að loka því. Konan, sem ekki vill láta nafns síns getið þar sem lögreglumál hafi orðið vegna þessa, tekur fram að bréfberinn í hverfinu hafi lengi borið þar út og ætíð sinnt sínu starfi vel en verið veikur þessa viku. Ekki sé, að hennar mati, hægt að ráða annað af ástandi póstsins og úttektunum af kortinu en að pósturinn hafi einhvers staðar legið utandyra án eftirlits.

Láti vita af töskum á víðavangi

Morgunblaðinu barst í gær yfirlýsing frá Íslandspósti, í tilefni af fréttum svipaðs efnis undanfarna daga. Í yfirlýsingunni segir að vinnureglur kveði skýrt á um að bréfberatöskur eigi aldrei að vera án eftirlits á víðavangi. Misbrestur hafi orðið þar á og hafi tafarlaust verið tekið á því með áminningum til viðkomandi bréfbera. „Vinnureglur Íslandspósts eru skýrar hvað þetta varðar og hefur sérstaklega verið hnykkt á þeim innan fyrirtækisins í kjölfar þessara ábendinga. Örugg meðferð pósts er grundvallaratriði í þjónustu Íslandspósts og liggur skýrt fyrir, að endurtekið brot á verklagsreglum hvað það varðar leiðir til uppsagnar.

Sjái fólk bréfberatöskur á víðavangi og engan bréfbera í augsýn hvetjum við eindregið til þess að láta vita í þjónustusíma Íslandspósts, 580-1200. Rétt er þó að hafa í huga að kerrur og töskur bréfbera geta sést fyrir utan hús á meðan póstur er borinn þar út, en þær eiga þá að vera í augsýn bréfberans,“ segir í yfirlýsingunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert