Laun á almennum vinnumarkaði 368 þúsund á síðasta ári

Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 303 þúsund krónur á mánuði árið 2007. Regluleg laun fullvinnandi launamanna voru 330 þúsund krónur að meðaltali og regluleg heildarlaun, það er regluleg laun ásamt yfirvinnu, voru 368 þúsund krónur, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. 

Greiddar stundir fullvinnandi launamanna voru að meðaltali 44,8 stundir á viku. Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 424 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Í heildarlaunum eru regluleg heildarlaun að viðbættum ýmsum greiðslum sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili svo sem desemberuppbót og afkomutengdar greiðslur.

Regluleg laun fullvinnandi launamanna eftir starfsstéttum voru á bilinu 209 til 638 þúsund krónur að meðaltali á mánuði árið 2007. Heildarlaun voru á bilinu 316 til 826 þúsund krónur. Laun stjórnenda voru hæst og laun verkafólks lægst.

Ef litið er til atvinnugreina voru laun fullvinnandi launamanna hæst í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum. Þar voru regluleg laun 425 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun 610 þúsund krónur. Regluleg laun fullvinnandi launamanna voru lægst í atvinnugreininni byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 298 þúsund krónur. Heildarlaun voru hins vegar lægst í atvinnugreininni verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 365 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.

Hagtíðindi Hagstofu Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert