„Pólska samfélagið hefur lokast dálítið“

Stanislaw Bukowski.
Stanislaw Bukowski. mbl.is/RAX

Málefnu meintra afbrotamanna frá Póllandi eru mjög til umræðu meðal samlanda þeirra hér á landi og valda töluverðum áhyggjum hjá öllum þeim fjölda Pólverja sem kæra sig ekkert um afbrot eða þá sem tengjast þeim, segir Pólverjinn Stanislaw Bukowski, sem búið hefur hérlendis og starfað undanfarin sjö ár.

Hann segir umræðuna um samfélag Pólverja á köflum afar undarlega og til að mynda geti hann engan veginn fengið botn í sögusagnir um „verndartolla“ sem skyndilega urðu á hvers manns vörum eftir árásina í Keilufelli þar sem Pólverjar komu við sögu.

„Ég fer mikið á milli staða vegna vinnu minnar í byggingargeiranum og er alltaf að spyrja samlanda mína um þetta en heyri aldrei neitt,“ segir hann. „Þetta er einhver misskilningur. Hvorki ég né þeir sem ég tala við kannast við að hér sé pólsk mafía sem níðist á samlöndum sínum. Það er óhugsandi að mínu mati og ég verð ekki var við slíkt þótt ég sé alltaf að spyrja aðra Pólverja,“ segir hann

„Nú fara í hönd þeir tímar sem enginn vill ráða Pólverja í vinnu af því að þeir eru allt í einu orðnir „glæpaþjóð“.“

Stanislaw bendir á Pólverjar hafi sjálfir haft vissar ranghugmyndir um Ísland og það hafi ekki byggt upp mjög jákvæða ímynd þeirra hérlendis. „Í uppsveiflunni undanfarin þrjú ár hafa Pólverjar komið hingað til að vinna og þar var fólk sem talaði engin tungumál utan móðurmálsins og reyndi ekki einu sinni að læra önnur mál,“ bendir hann á.

„Þeir hafa hugsað sem svo að hér væri nóga vinnu að hafa og þá þyrfti maður ekkert að leggja sig fram um að læra tungumálið. Þess vegna finnst mér pólska samfélagið hafa lokast dálítið. Fólk heldur sig í hópum út af fyrir sig eða bara heima hjá sér og tekur ekki mikinn þátt í hinu íslenska samfélagi.“

Stanislaw getur ekki dæmt um sekt eða sakleysi grunaðra samlanda sinna hérlendis „en við kærum okkur alls ekki um einstaklinga sem skaða ímynd Pólverja“, segir hann. „Það verður að hafa í huga að Pólverjar á Íslandi eru 15-20 þúsund talsins, álíka og helmingurinn af íbúafjölda Kópavogs.“

Stanislaw segir vissulega geta verið svarta sauði í hverri hjörð og þeir spilli fyrir heildinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert