Kennararáð Vallaskóla á Selfossi hefur sent sveitarfélaginu Árborg bréf, þar sem óskað er eftir að ráðist verði í nauðsynlegar lagfæringar á skilrúmum á milli salerna skólans til að aftra því að nemendur myndi skólafélaga sína þar með myndavélarfarsímum.
Kveikjuna að bréfinu má rekja til atviks frá því í haust, en þá myndaði nemandi skólafélaga sinn með myndavélarfarsíma, með því að teygja sig yfir skilrúm inni á salerni skólans.
„Ég þori ekki að fullyrða hvernig þessum málum er háttað í öðrum skólum eða hvort þetta er algengt vandamál, en ég tel fulla ástæðu til að skoða þessa hluti sérstaklega í eldri skólum landsins. Í dag eru menn mjög meðvitaðir um svona hluti við byggingu nýrra skóla.“
„Það eru ekki til nein sérstök lög um notkun myndavélarfarsíma, en að vera með myndavél inni í búningsklefa eða taka myndir af fólki á salerni getur hins vegar varðað við hegningarlög, því þá er nóg að taka mynd á óviðeigandi hátt.“
Sjálfstæðismenn í minnihluta bæjarstjórnar Árborgar lögðu fram tillögu á síðasta bæjarstjórnarfundi um að ráðist yrði í umræddar lagfæringar. Þar segir að mikilvægt sé að aðbúnaður sé með þeim hætti að ekki sé augljós hætta á einelti. Tillaga minnihlutans var felld, en Fjölskyldumiðstöð hefur verið falið að leysa málið í samvinnu við Vallaskóla og er sú vinna í gangi.