Talið er að spákaupmenn sem skipta með vaxtamun á milli landa sitji á um 800 milljörðum íslenskra króna, jafngildi um 75% af vergri landsframleiðslu Íslands. Þetta kom fram í ræðu Björgólfs Thors Björgólfssonar á aðalfundi Straums sem haldinn var í gær.
Björgólfur vitnaði í ræðu sinni í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í haust þar sem segir að jafnvægisgildi gengisvísitölu krónunnar sé á bilinu 150-190 stig en þá var vísitalan 115 stig. Sjóðurinn spáði því meira en 30% veikingu krónunnar og því ættum við að búast við frekari veikingu að mati Björgólfs Thors.
„Verkefni dagsins, og út árið, er að ná til baka trúverðugleika Íslands sem hagkerfis,“ sagði Björgólfur Thor í samtali við Morgunblaðið í gær.