Tilfinningahiti í Eyjum

Reiknað er með að fella þurfi niður ferjuferðir til Bakkafjöruhafnar …
Reiknað er með að fella þurfi niður ferjuferðir til Bakkafjöruhafnar 5-9 daga á ári vegna veðurs, svipað og þegar siglt er til Þorlákshafnar. mbl.is/Rax

Tilboð vegna kaupa og reksturs á ferju milli Vestmannaeyja og fyrirhugaðar Landeyjarhafnar verða opnuð á morgun. Nefnd á vegum samgönguráðuneytisins sér um útboðið. Mikill tilfinningahiti virðist vera í Eyjamönnum, sem virðast skiptast í tvær fylkingar eftir afstöðu til nýrrar hafnar í landi.

Undirskriftasöfnun hefur staðið yfir á netinu undanfarna daga á vegum Magnúsar Kristinssonar, kaupsýslumanns, þar sem safnað er undirskriftum gegn nýrri höfn og þess í stað hvatt til þess að smíða hraðskreiða ferju sem gangi á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Nú síðdegis voru 3000 nöfn komin á listann.

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri sagði að Vegagerðin myndi leggja veg frá þjóðveginum niður að nýju höfninni á Landeyjarsandi og hugsanlegt væri að henni yrði falið að sjá um greiðslur vegna fyrirhugaðs þjónustusamnings sem boðinn verður út á morgun. 

„Vestmannaeyingar sjálfum sér verstir" 

Vegagerðin hafði milligöngu um að jarðgangnagerð yrði rannsökuð en kom að öðru leyti ekki að þeirri vinnu.  „Ég er eiginlega hættur að skilja málið alveg, ég held að Vestmannaeyingar séu sjálfum sér verstir í þessu máli," sagði Jón.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum  sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að á undirskriftarlista þeirra sem eru mótfallnir Bakkafjöruhöfninni sé meirihlutinn fólk, sem er ekki búsett í Eyjum og að málið hafi að miklu leyti verið blásið upp í fjölmiðlum.

 „Öllum rökum sem koma fram á þessum undirskriftarlista hefur verið svarað fyrir lifandis löngu," sagði Elliði. „Það er mikil óánægja með stöðu samgangna í Vestmannaeyjum og fólk orðið óþreyjufullt að bíða eftir lausnum á vandanum," sagði Elliði og bætti því við að hann teldi það vera að hluta til ástæðu þess að það væru jafnmörg nöfn á undirskriftarlistanum og raun ber vitni.

Elliði sagði að um 30% af kjörgengum Eyjamönnum væru búnir að skrifa undir listann en tók fram að hann væri ekki búinn að skoða hann nákvæmlega eða tölfræðigreina hann.

Betra að veifa röngu tré en öngu

Elliði sagði að rök þeirra sem eru mótfallnir Bakkafjöruhafnar séu að miklu leyti byggðar á ranghugmyndum um framkvæmdina.  „Aðferðir forsvarsmanna listans byggja á því að betra sé að veifa röngu tré en öngu," sagði Elliði og benti í því samhengi á myndband sem er að finna á vefsíðu listans.

Elliði sagði að það væri ekki hægt að bera saman lítinn lóðsbát og stóra 70 metra ferju. „Það er búið að hræða fólk með ýmsum aðferðum og nú sem endranær er skrattinn alveg feikilega vinsælt veggskraut", sagði Elliði.

Að lokum sagði hann að andstæðingar Bakkafjöruhafnar hefðu knúið sitt mál með rökum sem ekki styðjast við raunveruleika og hafi keyrt það áfram eins og kosningabaráttu á tilfinninganótum og fá fólk til að efast um að gætt yrði að öryggi farþega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert