Hópur Vestmannaeyinga leggur í svaðilför til styrktar Krafti

Daníel Reynisson, formaður Krafts, Friðrik Stefánsson, Bjartmar Sigurðsson og Hilmar …
Daníel Reynisson, formaður Krafts, Friðrik Stefánsson, Bjartmar Sigurðsson og Hilmar Kristjánsson. mbl.is/Golli

„Við vorum að ræða málin og langaði að gera eitthvað í sumar,“ segir Bjartmar Sigurðsson, spurður hvernig frækinn hópur Vestmannaeyinga fékk þá hugmynd að fara hringinn kringum landið á tveimur flatbotna gúmmíbátum. „Okkur langaði að gera svo margt og sjá svo marga staði að á endanum vorum við komin hringinn kringum landið í huganum.“

Fyrr en varði voru félagarnir farnir að undirbúa siglingu kringum landið. Þeir ákváðu að láta um leið gott af sér leiða, en ferðin verður nýtt til að vekja athygli út um allt land á Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks með krabbamein.

Úr höfn á þjóðhátíðardaginn

Bjartmar reiknar með að hringferðin verði mikil þrekraun.

„Við áætlum að sigla frá 4 til 10 tíma á dag, eftir veðri. Þó er erfitt að segja vel til um framvindu ferðarinnar, enda geta aðstæður breyst á augabragði,“ segir Bjartmar, en aðstoðarfólk mun fylgja hópnum eftir í landi á bíl.

Gúmmíbátarnir sem notaðir verða eru stórir og búnir öllum nauðsynlegum siglinga- og öryggistækjum, og hefur ferðin verið skipulögð í góðu samstarfi við björgunarsveitir hringinn í kringum landið.

Þess má geta að þetta er ekki fyrsta hringferðin af þessu tagi, en Bjartmar segir hóp galvaskra Eyjapeyja hafa siglt sömu leið árið 1972.

Heimasíða ferðalanganna er krafturkringumiceland.com og er þar hægt að styrkja framtakið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert