Ekkert fundarboð hefur borist

Sigrún Jónsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, er afar undrandi yfir því að ekkert fundarboð hafi borist í dag frá ríkissáttasemjara í kjaradeilu flugfreyja og flugþjóna við Icelandair.

Að hennar sögn stóð til að félagið fundaði með fulltrúum Icelandair í húsnæði ríkissáttasemjara í gær, en fundinum var hins vegar frestað.

Sigrún bendir á að ef flugfreyjur og flugþjónar leggi niður störf sé ljóst að það muni hafa gríðarleg áhrif.

Fastráðnar flugfreyjur og flugþjónar hjá Icelandair eru um 500 talsins. Sá hópur fer stækkandi þar sem sumarstarfsmenn eru að bætast í hópinn. 

Á félagsfundi Flugfreyjufélagsins í gærkvöld var samþykkt að samninganefnd félagsins hæfi undirbúning að boðun verkfalls hjá flugfreyjum og -þjónum Icelandair.

Sigrún bendir á að ekki sé búið að ákveða neinar tímasetningar varðandi fyrirhugað verkfall.

Þess má geta að Félag Íslenskra atvinnuflugmanna hefur fundað með fulltrúum Icelandair í húsi ríkissáttasemjara frá því kl. 11 í dag.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert