Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var meðal vegfarenda sem fyrstir komu að slysstað ofarlega í Norðurárdal í gær en þar hafði kona lent í bílveltu án þess þó að slasast alvarlega að því er talið var. Forsetinn var ásamt fylgdarliði og lögreglu frá Sauðárkróki á leið heim úr opinberri heimsókn til Skagafjarðar og stöðvuðu við slysstaðinn.
Að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, yfirlögregluþjóns á Sauðárkróki, sinntu norðanmenn vettvangi á meðan beðið var lögreglu og sjúkraliðs frá Borgarnesi.
„Þegar okkur bar að voru komnir á slysstað vegfarendur sem höfðu tilkynnt slysið,“ segir hann. Hafi forsetinn stigið út úr forsetabíl sínum og rætt við konuna eftir að lögregla hafði sinnt henni. „Hann gerði það sem hann taldi vera réttast og kom mjög vel fyrir,“ segir Stefán.
Þegar aðstoð frá Borgarnesi kom á vettvang hélt síðan forsetinn ásamt fylgdarliði áfram för sinni.