Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, vonar að eftir um hálfan mánuð verði gengið frá samkomulagi við hagsmunaaðila um takmarkanir við auglýsingum sem beint er að börnum. Það felur m.a. í sér fortakslaust bann við auglýsingum í kringum barnatíma.
Talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafa unnið að því í tvö ár að skoða markaðssókn sem beinist gegn börnum. Samkvæmt nýrri könnun Capacent fyrir menntamálaráðuneyti eru ríflega 60% landsmanna andvíg því að leyfa auglýsingar sem beint er að börnum.
Gísli segir að í júní í fyrra hafi talsmaður neytenda og þáverandi umboðsmaður barna rætt þessi mál útvarpsstjóra, forsvarsmenn 365 og Skjás eins. Einnig var fundað með fulltrúum atvinnurekenda á þessu sviði og kynnt áform um að semja annaðhvort formlega um mörk við auglýsingum eða hafa samráð um leiðbeiningar á vegum talsmannsins og umboðsmanns barna.
Hann segir að undanfarnar vikur hafi talsmaður neytenda og umboðsmaður barna fundað með um 50 aðilum úr stjórnsýslunni, almannasamtökum, auk þess sem rætt hafi verið við fræðimenn og fleiri, um ýmis álitamál.
Nú liggi tillögurnar fyrir og hafi verið sendar hagsmunaaðilum.
Spurður hvað felist í samkomulaginu segir Gísli að þar sé m.a. kveðið á um fortakslaust bann við auglýsingum í kringum barnatímann. Það feli í sér að ekki verði auglýst í barnatímum sjónvarps um tíu mínútum áður en barnadagskráin hefst. „Að auki verði takmarkanir á auglýsingum á matvörum sem ekki ná ákveðnum hollustustimpli fyrir klukkan um það bil átta eða níu á kvöldin,“ segir Gísli. Ennfremur er í tillögunum kveðið á um bann við markaðssókn gagnvart börnum í skólum.