Harma tillögur um að fækka fulltrúum stúdenta í háskólaráði

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hefur sent frá sér ályktun og skýrslu vegna frumvarps til laga um opinbera háskóla sem tekið verður fyrir á Alþingi í dag. Hvetur félagið þar ráðamenn þjóðarinnar til að vanda sérlega til verka við afgreiðslu frumvarpsins.

Í ályktuninni kemur fram að félagið harmi að nýtt frumvarp til laga um opinbera háskóla feli í sér fækkun fulltrúa stúdenta í háskólaráði og að í frumvarpinu sé háskólaráði veitt það lögformlega hlutverk að koma með tillögur um hækkun skrásetningargjalda við Háskóla Íslands.

Skýrslan, sem birt er á heimasíðu Vöku hefur verið kynnt stúdentaráði Háskóla Íslands og send öllum þingmönnum.

Ályktun félagsins fer í heild sinni hér á eftir:   

„Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, harmar að nýtt frumvarp til laga um opinbera háskóla feli í sér fækkun fulltrúa stúdenta í háskólaráði.

 Háskólasamfélagið samþykkti nýlega að fulltrúar stúdenta í háskólaráði yrðu tveir, Einnig var samþykkt að stúdentar fengju seturétt í öllum helstu nefndum, og var þar miðað við fimmtung setufulltrúa. Með þessari breytingu á skipan háskólaráðs fækkar fulltrúum nemenda úr tveimur af tíu niður í einn af sjö, eða úr 20% nefndarmanna niður í 14.3%. Um 80% þeirra sem starfa innan veggja Háskóla Íslands eru stúdentar, og telur Vaka því eðlilegt að fulltrúar þeirra hafi raunverulegt vægi á æðstu stjórnunarstigum skólans. 

Vaka leggur til að háskólaráð verði framvegis skipað átta fulltrúum; tveimur frá stúdentum, tveimur frá háskólasamfélaginu, tveimur frá menntamálaráðuneytinu og tveimur völdum af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði. 

Vaka harmar einnig að í frumvarpinu sé háskólaráði veitt það lögformlega hlutverk að koma með tillögur um hækkun skrásetningargjalda við Háskóla Íslands, enda eru skrásetningargjöld ekkert annað en skólagjöld að mati Vöku. 

Vaka fagnar því að löggjafinn boði breytingar sem félagið hefur lengi barist fyrir, til að mynda skilvirkari stjórnsýslu, faglegri ráðningum deildarforseta og fleiri breytingum sem frumvarpið felur í sér.

Vaka hvetur ráðamenn þjóðarinnar að vanda til verka við afgreiðslu frumvarpsins."   
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert