Lögregla á höfuðborgarsvæðinu fékk nýverið hjálparbeiðni frá manni sem stóð á á baðsloppnum einum fata við heimili sitt síðla kvölds. Samkvæmt upplýsingum lögreglu voru upplýsingar um ástand mála á vettvangi óljósar uns komið var á staðinn. Þar hittu lögreglumenn hins vegar fyrir kaldan og klæðalítinn mann sem sagðist vera læstur úti heima hjá sér.
Fljótlega kom þó á daginn að maðurinn var ekki einn heima því sambýlis- eða vinkona hans reyndist vera innandyra þegar að var gáð. Reynt var að fá hana til að opna útidyrahurðina en konan var ekki mjög samvinnufús og tók því fálega. Að lokum féllst konan þó á að opna fyrir manninum en ekki fengust skýringar á því hvernig eða hvers vegna hann endaði fáklæddur fyrir utan heimili sitt.
Engin merki sáust um líkamlegt ofbeldi en fólkið hafði augljóslega átt í illdeilum og var áfengi haft um hönd.