Menningarsalurinn skuli keyptur strax

„Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að sveitarfélagið láti gera þarfagreiningu fyrir sig áður en ráðist er í jafn mikla fjárfestingu og menningarhús vissulega er, en tækifærið er fyrir hendi við dyrnar hjá bæjarstjórninni og það gæti glatast ef ekki verður brugðist við fljótlega.“

Þetta segir Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, sem mynda minnihluta í bæjarstjórn Árborgar. Á síðasta fundi bæjarstjórnar lögðu sjálfstæðismenn fram tillögu um að gengið yrði til viðræðna við eigendur Hótels Selfoss um kaup á rúmlega þrettán hundruð fermetra menningarsal hótelsins, sem staðið hefur ókláraður síðan 1984. Tillögu sjálfstæðismanna var hafnað.

„Það hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um nýtingu á salnum og ég tel að við gætum misst af þessu tækifæri á meðan við bíðum eftir að nefnd á Akureyri skili áliti um menningarhús á Selfossi.“

Bæjarstjórn Árborgar óskaði eftir því á haustdögum að nefnd á vegum Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri ynni þarfagreiningu á menningarhúsi í sveitarfélaginu.

Salurinn falur fyrir 90 milljónir

„Salurinn er fokheldur og hann hefur staðið ókláraður í tugi ára. Það er talað um að kostnaður við að kaupa hann og standsetja verði að lágmarki um 290 til 300 milljónir króna,“ segir Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri Árborgar.

Útilokar ekki neitt

„Áður en við ráðumst í svona fjárfestingu viljum við líta yfir völlinn til að sjá hvað hér sé í gangi, hvað sé til af húsnæði og hvað fólki finnst vanta. Við viljum gera vel en það er mjög mikilvægt að þörfinni sé mætt þegar ráðist verður í jafn viðamikið verkefni.Við höfum ekki útilokað kaup á menningarsalnum.“

Að sögn Ragnheiðar mun umrædd nefnd RHA skila áliti sínu fyrir næsta haust.

Í hnotskurn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert