Reglur um aðbúnað gæludýra í lög?

Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir, um­hverf­is­ráðherra, hef­ur skipað nefnd til að end­ur­skoða dýra­vernd­ar­lög. Mark­mið með end­ur­skoðun lag­anna er m.a. að stjórn­sýsla og eft­ir­fylgni mála á sviði dýra­vernd­ar verði skil­virk og sem ein­föld­ust í fram­kvæmd.

Í því sam­bandi verður skoðað hvort end­ur­skoða þurfi þving­unar­úr­ræði og viður­lög lag­anna. Nefnd­in á einnig að fara yfir efnisákvæði lag­anna varðandi vernd dýra og kanna hvort þörf sé á að auka þá vernd.

Þá á nefnd­in að taka til at­hug­un­ar hvort ástæða sé til að setja ákvæði um aðbúnað og um­hirðu gælu­dýra og dýra­hald í at­vinnu­skyni í lög og gera til­lög­ur um ákvæði varðandi aðferðir við að fanga gælu­dýr sem sloppið hafa úr um­sjón manna, ganga laus og þykja til ama. Einnig á nefnd­in að meta hvort til­efni sé til að setja ákvæði um eyðingu mein­dýra í lög­in.

Þá mun nefnd­in jafn­framt fara yfir ákvæði laga um búfjár­hald og laga um vernd, friðun og veiðar á villt­um fugl­um og villt­um spen­dýr­um, sem varða dýra­vernd með það fyr­ir aug­um að sam­ræma sem best ákvæði þess­ara laga og laga um dýra­vernd. Nefnd­in mun hafa sam­ráð við dóms­málaráðuneytið varðandi hlut­verk lög­reglu­yf­ir­valda við fram­kvæmd dýra­vernd­ar.

Nefnd­ina skipa: Sigrún Ágústs­dótt­ir, lög­fræðing­ur í um­hverf­is­ráðuneyt­inu, formaður, Sig­ur­borg Daðadótt­ir, dýra­lækn­ir, Sif Trausta­dótt­ir, dýra­lækn­ir, Krist­inn Huga­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­inu og Hjalti J. Guðmunds­son, sviðsstjóri hjá Um­hverf­is­stofn­un.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert