Margir tugir nemenda leita sér á hverjum vetri aðstoðar hjá sálfræðingum og námsráðgjöfum í háskólum vegna prófkvíða.
Einkennin geta verið líkamleg, eins og til dæmis bólgur í maga og vöðvum auk svefnleysis. Andlegu einkennin eru kvíði, vonleysi og vanmáttarkennd,að sögn Rögnu Ólafsdóttur, sálfræðings hjá náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands.
Þeir sem leita sér aðstoðar yfir veturinn hjá náms- og starfsráðgjöfinni skipta tugum. Flestir koma þegar prófin fara að nálgast. „Við bjóðum upp á námskeið á haustin og vorin þar sem kennd er stjórnun á prófkvíða. Einnig er boðið upp á einstaklingsmeðferð,“ segir Ragna.
Sólveig Hrafnsdóttir, námsráðgjafi við Háskólann á Akureyri, segir að til hennar leiti einhverjir tugir prófkvíðinna nemenda á hverjum vetri. „Þeir koma með prófkvíða úr öðrum skólum og við kennum þeim að reyna að ráða við hann. Kvíðinn hverfur ekki alltaf strax en það bætir líðanina að kunna að stjórna honum.“
Nemendur sem leitað hafa til námsráðgjafa við Háskólann í Reykjavík í vetur skipta nokkrum tugum, að sögn Karenar Björnsdóttur námsráðgjafa. Þar er boðið upp á kvíðastjórnunarnámskeið eins og í hinum háskólunum.
Þekkir þú til?