Þjáð af prófkvíða

 Margir tugir nemenda leita sér á hverjum vetri aðstoðar hjá sálfræðingum og námsráðgjöfum í háskólum vegna prófkvíða.

 Einkennin geta verið líkamleg, eins og til dæmis bólgur í maga og vöðvum auk svefnleysis. Andlegu einkennin eru kvíði, vonleysi og vanmáttarkennd,að sögn Rögnu Ólafsdóttur, sálfræðings hjá náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands.

Óraunhæfar kröfur

„Vegna prófkvíðans kemur það fyrir að nemendur fresti prófum eða fari úr einni námsgreininni í aðra. Í prófunum sjálfum skortir þá sem eru með prófkvíða oft einbeitingu. Þeir æða til dæmis úr einni spurningunni í aðra. Þeir eru ekki nógu markvissir, hvorki í prófinu sjálfu né undirbúningnum. Þetta getur augljóslega sett mark sitt á námið. Oft er um að ræða góða nemendur sem gera óraunhæfar kröfur til sjálfra sín,“ segir Ragna sem bætir því við að venjuleg prófstreita sé bara eðlileg og hvetjandi. „Þegar streitan fer hins vegar yfir ákveðin mörk og líðanin er orðin það slæm að fólk getur ekki gert eins vel og það getur er um vandamál að ræða.“

Þeir sem leita sér aðstoðar yfir veturinn hjá náms- og starfsráðgjöfinni skipta tugum. Flestir koma þegar prófin fara að nálgast. „Við bjóðum upp á námskeið á haustin og vorin þar sem kennd er stjórnun á prófkvíða. Einnig er boðið upp á einstaklingsmeðferð,“ segir Ragna.

Fleiri stelpur en strákar

Hún segir stelpur í meirihluta þeirra sem leita sér aðstoðar. „Það þýðir ekki að þær séu kvíðnari en strákar. Þær eru kannski ekki jafnviðkvæmar fyrir því að viðurkenna veikleika.“

Sólveig Hrafnsdóttir, námsráðgjafi við Háskólann á Akureyri, segir að til hennar leiti einhverjir tugir prófkvíðinna nemenda á hverjum vetri. „Þeir koma með prófkvíða úr öðrum skólum og við kennum þeim að reyna að ráða við hann. Kvíðinn hverfur ekki alltaf strax en það bætir líðanina að kunna að stjórna honum.“

Nemendur sem leitað hafa til námsráðgjafa við Háskólann í Reykjavík í vetur skipta nokkrum tugum, að sögn Karenar Björnsdóttur námsráðgjafa. Þar er boðið upp á kvíðastjórnunarnámskeið eins og í hinum háskólunum.

Þekkir þú til?

Í hnotskurn
Nemendur með prófkvíða fá lengri tíma en aðrir til að ljúka prófi. Þeir fá einnig að sitja í fámennum stofum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert