Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði á ráðstefnunni Skipulag eða stjórnleysi í Laugardalshöllinni í dag, að sá einfaldleiki sem áður hefði ráðið ríkjum í skipulagsmálum væri horfinn. „Nú hafa forsjárhyggjuöflin og valdboðið náð yfirhendinni," sagði hann.
Gunnar nefndi sem dæmi að fyrrverandi umhverfisráðherra hefði fullyrt við sig að Kópavogsbær væri búinn að byggja nóg af verslunar- og þjónustuhúsnæði. „Og nú rennir nýi ráðherrann sér skriðtæklingu fyrir fæturna á okkur."
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, sagði sveitarfélögin sem stæðu að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins hafa mismunandi sýn á skipulagið. Sagði hann núverandi skipulag næstum ónýtt, í það minnsta standa á brauðfótum. Taldi hann koma til greina að gera nýtt skipulag sem næði aðeins til ákveðinna þátta, t.d. samgangna og umhverfismála.