18.000 skattskussar

Um 18 þúsund manns skiluðu ekki skattskýrslu í fyrra. Á skattgrunnskrá á árinu 2007 voru um 253 þúsund manns og af þeim voru því um sjö prósent sem ekki skiluðu skattskýrslu. „Það er óviðunandi að það séu svona margir sem ekki skila skattframtali,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.

Hlutfall þeirra sem ekki skila hækkar

Hlutfall framteljenda sem ekki skila skattframtali hefur hækkað frá því að vera um 3,5 prósent árið 1994 og upp í 7 prósent í fyrra. Þegar skattframtali er ekki skilað þarf að áætla skatt á viðkomandi. Skúli segir það alltaf vont að þurfa að áætla skatt á einstaklinga. „Það skekkir allar hagstærðir. Innheimta áætlaðra skattskulda er líka alltaf erfiðari en ella og það má ekki gleyma því að þetta er lögbundin skylda. Það er líka mjög óþægilegt fyrir fólk að láta áætla á sig því yfirleitt er áætlað meira á það en tekjur þess eru og það kostar bara umstang og vandræði fyrir fólk, sérstaklega ef þetta eru launþegar því þá er haldið eftir skatti sem er kannski óþarflega hár vegna þess að fólk hefur ekki skilað framtali.“

Skúli segir að farið hafi verið í átaksverkefni nú í ár til að draga úr vanskilum á skattframtali. „Við höfum auglýst betur nú en verið hefur undanfarin ár hvernig eigi að skila skattframtölum. Í öðru lagi höfum við tekið í notkun nýjan framtalsvef sem er notendavænni en áður var. Í þriðja lagi reikna ég með að við munum fara yfir málin og hugsanlega gera þeim viðvart sem ekki hafa talið fram í byrjun júní.“

Oft um handvömm að ræða

Skúli segist ekki hafa skýringu á því hvers vegna hlutfall þeirra sem ekki skila skattframtali hafi hækkað undanfarin ár. „Í mörgum tilfellum er það handvömm sem skýrir að skattframtali er ekki skilað. Oft telur fólk sig hafa skilað en það hefur eitthvað skort á staðfestingu þess í gegnum netið. Einnig eru dæmi þess að fólk hafi sett framtalsgerð í hendur annarra sem hafa svo af ýmsum ástæðum ekki skilað framtalinu.“ Skúli segir jafnframt að nýlega sé búið að gefa út leiðbeiningar um skattskil á tíu tungumálum til að auðvelda útlendingum að skila skattskýrslum. „Ein skýringin á fjölgun þeirra sem ekki skila er fjölgun útlendinga sem eiga að telja fram hér á landi og átta sig hreinlega ekki á því.“

ÞEKKIR ÞÚ TIL?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert