Baráttan um hæft starfsfólk á eftir að harðna og „það er ekkert víst að við [Íslendingar] séum með mjög sterka stöðu í þeirri samkeppni á alþjóðavísu,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Samtök atvinnulífsins kynntu í dag nýtt rit, sem ber yfirskriftina Baráttan um besta fólkið, þar sem fjallað er um alþjóðavæðingu vinnumarkaðarins.
Þar kemur m.a. fram að Ísland stendur Norðurlöndunum í heild að baki við að takast á við áskoranir hnattvæðingarinnar.
Ísland stendur vel að vígi í alþjóðlegum samanburði hvað varðar laun og skatta en hátt verðlag og smæð landsins eru ekki aðlaðandi. Á heildina litið er samkeppnisstaða Íslands um hæft starfsfólk í meðallagi þegar litið er til kaupmáttar launa eftir skatt.
Íslendingum á vinnumarkaði mun fjölga tiltölulega hægt á næstu árum og áratugum. Stórir árgangar hverfa af vinnumarkaði vegna aldurs og nýir árgangar sem koma í staðinn eru tiltölulega fámennir. Vinnuframlag erlends starfsfólks verður ein meginforsenda hagvaxtar.