Sigrún Jónsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands segir að flugfélagið JetX hóti flugfreyjum og -þjónum brottrekstri, beint og óbeint, impri þau á því að gerast félagar að Flugfreyjufélaginu. Á föstudag hafi yfirflugfreyju JetX verið sagt upp störfum, daginn eftir fund hjá Flugfreyjufélaginu þar sem verið var að ræða um aðildarumsókn þeirra vegna þess að hagsmunir hennar og flugfélagsins færu ekki saman.
Sigrún segir að um tugur fastráðinna flugfreyja og -þjóna hjá JetX hafi formlega sótt um aðild að félaginu í ágúst í fyrra og aðildarumsóknin verið samþykkt af hálfu Flugfreyjufélagsins. Hún hafi þó ekki sent nöfn þeirra og kennitölur til félagsins en þess þarf til að innheimta félagsgjöld og formfesta aðildina þar sem starfsfólkið óttist að því verði umsvifalaust sagt upp störfum.
„Óttinn við að þetta fólk verði rekið er raunverulegur. Og það sýndi sig á föstudag. Við hittumst hér á fimmtudeginum og ræddum málin og ég sagði þeim það að besta ráðið væri að við færum sem hópur í þetta, ekki einn og einn, segir hún. Sólarhring síðar hafi verið búið að segja yfirflugfreyjunni upp af því að hagsmunir færu ekki saman. Með þessu sé verið að hræða starfsfólk frá því að ganga í Flugfreyjufélagið. „Þarna er verið að sýna þeim sem eftir sitja hvernig fer fyrir þeim sem opna munninn, jafnvel þótt þeir séu góðir starfsmenn,“ segir hún.