Óvarleg alhæfing

Egill Helgason.
Egill Helgason. mbl.is

„UNGLINGAR eru náttúrlega mjög vitlausir almennt,“ sagði Egill Helgason, stjórnandi Kiljunnar, þegar rætt var um bókina Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson 9. apríl sl.

Þessi ummæli fóru fyrir brjóstið á ungum áhorfanda, Guðrúnu Ingibjörgu Þorgeirsdóttur, nemanda í 9. bekk Hagaskóla. Hún skrifaði bréf til Morgunblaðsins, sem birtist í gær, og fór fram á að Egill bæðist afsökunar á þessum ummælum. „Líklega hefur þetta átt að vera einhvers konar brandari hjá honum. Ég hugsa það, án þess að ég viti nokkuð um það. Mér finnst þetta einfaldlega eitthvað sem maður gerir ekki grín að,“ sagði Guðrún í samtali við Morgunblaðið.

Guðrún sagði að henni þætti oftar rætt um það sem aflaga færi hjá unglingum en það sem vel væri gert. Hún og vinir hennar væru ekki í hópi þeirra sem brytu og brömluðu eigur annarra. „Við stöndum okkur vel í skólanum og erum í heilbrigðum tómstundum. Við erum að vinna að því að styrkja okkur sem einstaklinga,“ sagði Guðrún.

En hvernig bregst Egill Helgason við? „Það er hægt að taka hluti sem maður slettir fram í gríni – og kannski dálitlum glannaskap – of alvarlega. Þetta er dæmi um svona óvarlega alhæfingu af þessu tagi. Mér hefði aldrei dottið í hug að hún gæti verið meiðandi – enda held ég að hún sé það ekki í samhengi þess sem var rætt,“ sagði Egill í tölvubréfi til Morgunblaðsins. „Ég held raunar að ég hafi aðallega verið að tala um sjálfan mig. Ég var mjög vitlaus sem unglingur og flestir vinir mínir voru vitlausir líka. Til dæmis fannst mér Bréf til Láru sem var til umfjöllunar í umræddum þætti mjög góð bók þegar ég var unglingur. Seinna sá ég að svo var ekki. En ég þvertek samt ekki fyrir að ég sé ennþá vitlaus. Svo lengi lærir sem lifir. Annars er ekkert sem segir að sá sem er vitlaus þegar hann er ungur sé ekki líka vitlaus þegar hann er gamall. Kannski margfalt vitlausari. Annars er þetta líka spurning um ólíka hæfileika; ungt fólk er til dæmis mjög sterkt á tilfinningasviðinu, það verður sljórra þegar maður eldist en þá er maður kannski orðinn aðeins betri í gagnrýninni hugsun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka