„Það kom glöggt fram á fundinum að menn telja að landsmönnum sé farið að misbjóða þessi deila hér við lögreglustjóraembættið sem hefur unnið mjög gott starf. Fundarmenn telja að það þurfi að höggva á þessar deilur því þær skaði varnir Íslands,“ segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins og þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi.
Hann stóð ásamt Bjarna Harðasyni þingmanni fyrir opnum borgarafundi í Reykjanesbæ í gærkvöldi þar sem málefni lög-, toll- og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli voru til umræðu.
Að sögn Guðna var mikið fjölmenni á fundinum og allir sammála um að deila dómsmálaráðherra við lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum hefði nú þegar staðið allt of lengi. Menn væru því orðnir langeygir eftir lausn málsins áður en óafturkræfur skaði hefði orðið vegna málsins.
Í lok fundar var með lófataki samþykkt að skora á forsætisráðherra, Geir H. Haarde, að höggva á þann hnút og deilur sem nú eru uppi um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum. Að sögn Guðna töldu fundargestir ekki skynsamlegt að hrapa að breytingum og uppstokkun á embættinu því sameinað lögreglu- og tollstjóraembætti hefur náð miklum árangri.
„Þessi deila hefur staðið lengi og er farin að skaða lögregluliðið. Fólkið sem þarna starfar botnar náttúrlega ekkert í því af hverju þetta þarf að vera með þessum hætti. Þannig að starfsfólkið er orðið mjög þreytt á þessari deilu.“