Stór hluti reykingafólks hefur reynt nýlega að hætta

Stór hluti reykingafólks, eða 66%, hefur reynt að hætta að reykja á síðustu 12 mánuðum. Um 22% fólks á aldrinum 15-89 ára reykja daglega og um 3% reykja  sjaldnar en daglega. Nær enginn munur var á hlutfalli karla og kvenna sem reyktu daglega.   

Þetta kemur fram í skýrslu um rannsókn, sem Lýðheilsustofnun birti í dag þar sem leitast við að skoða reykingavenjur fólks og hvað einkenndi þá sem tekist hefur að hætta að reykja. 

Þegar spurt var sérstaklega  voru mun færri tilbúnir til að hætta að reykja í næsta mánuði og meira en helmingur reykingamannanna hafði ekki áhuga á að hætta á næstu 6 mánuðum eða var alls ekki að íhuga að hætta að reykja. Yfir 70% þeirra sem tókst að hætta að reykja fengu enga sérstaka aðstoð við að hætta, en rúmlega 22% notaði reykleysislyf sér til aðstoðar. Nokkuð stór hluti þeirra sem enn reykti notaði nikótínlyf sem er ekki í samræmi við leiðbeiningar um notkun slíkra lyfja.

Notkun reykleysislyfja á Íslandi var borin saman við notkun á öðrum Norðurlöndum. Í ljós kom að á Íslandi eins og hjá nágrannaþjóðum okkar hafði neysla nikótínlyfja aukist töluvert síðustu ár, en dregið hefur úr notkun Zybans á Íslandi. Sú notkun hefur verið nokkuð stöðug í hinum löndunum. Heildareyðsla til kaupa á reykleysislyfjum og þá sérstaklega nikótínlyfjum á hvern íbúa var mun meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Aukning sem hefur orðið á notkun nikótínlyfja á Íslandi undanfarin ár er ekki í samræmi við þróun í tíðni reykinga, en sú þróun hefur verið nokkuð stöðug.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert