Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur fengið boð kínverskra yfirvalda um að heimsækja Tíbet og kynna sér af eigin raun stöðuna í mannréttindamálum þar í landi.
Á fundi Björgvins með ráðherra viðskiptamála í Kína á miðvikudag lýsti Björgvin yfir áhyggjum sínum af stöðu mannréttinda í Tíbet. Að sögn Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra, svaraði hinn kínverski starfsbróðir hans á þá leið að réttast væri að Björgvin kynnti sér málin af eigin raun. Var þetta svar kínverska ráðherrans á þá lund að ekki hefði verið hægt að skilja það öðruvísi en svo að um boð væri að ræða, segir Jón Þór. Telst boðið vera jákvætt en það sé í höndum íslenskra stjórnvalda að bregðast við því í eðlilegu samhengi, segir hann. Boðið hafi hvorki verið þegið né afþakkað á fundi ráðherranna.
Að loknum fundi ráðherranna tveggja var málið rætt milli íslenska sendiráðsins í Peking og kínverska utanríkisráðuneytisins og fór sá fundur fram í gær.
Björgvin G. Sigurðsson er væntanlegur til landsins í dag úr heimsókn sinni til Kína.