Brynjúlfur Brynjólfsson hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands segir farfuglana í ár heldur seinna á ferðinni en venjulega.
Skógarþrestir koma t.d. yfirleitt seinni hluta mars, en birtust í ár ekki fyrr en í apríl, en slíkt gerist alltaf annað slagið, að sögn Brynjúlfs.
Brynjúlfur hefur unnið að merkingum skógarþrasta, og segir þá feita og fína við komuna til landsins, og ekkert sem bendi til að þeir hafi lent í vandræðum á ferð sinni yfir Atlantshafið.
Fyrstu spóarnir sáust á miðvikudag, þrír í Óslandi á Höfn og um 30 fuglar við Eyrarbakka. Þá hefur verið mjög mikið gæsaflug yfir Höfn, 100 til 500 fuglar í hverjum hópi, og þá grágæsir, heiðagæsir og helsingjar.