Heimilislausir fleiri en borgin telur

„Staðan er bara hreint út sagt hörmuleg í alla staði, því það er mjög veikt fólk á götunni,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, um ástand heimilislausra í Reykjavík.

„Stór hópur heimilislausra fær ekki inni í gistiskýlum og þarf að sofa í hreysum, í fangelsum eða jafnvel undir tré á Klambratúni. Það þarf að taka markvisst á þessum málum og byrja á því að viðurkenna vandann, því það þýðir ekki að tala um að bara fjörutíu til sextíu einstaklingar séu í þessari stöðu, þegar þeir eru miklu fleiri.“

Ástandið fjórfalt verra

Engar nákvæmar tölur eru til um fjölda heimilislausra í Reykjavík. Samkvæmt tölum frá Geðhjálp er talið að um 111 geðsjúkir einstaklingar séu á vergangi í borginni, en velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur gefið út að það telji fjölda heimilislausra vera á bilinu fjörutíu til sextíu, en þær tölur eru byggðar á skýrslu sem var unnin árið 2005. Þorleifur Gunnlaugsson telur þá tölu ekki gefa rétta mynd af ástandinu.

„Þessi tala er svona fjórum sinnum hærri. Þessi skýrsla er þriggja ára gömul og það hefur átt sér stað mikil nýliðun á þeim tíma, því ungum fíklum hefur fjölgað mikið á götunni síðan þá. Þessi hópur hefur hafst við í auðum húsum í miðborginni undanfarna mánuði og hefur því ekki verið eins áberandi, en nú er búið að loka flestum þessara húsa.“

Raunhæf tala

„Árið 2005 var ráðist í verkefni þar sem staða þessara einstaklinga var metin og skilgreint hvað það sé að vera heimilislaus,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

„Nú er hópur að störfum sem vinnur að stefnumótun í málefnum heimilislausra og að þeirri vinnu lokinni má vera að meta þurfi stöðu þessa fólks að nýju. Við vinnum út frá því að hópurinn sé fjörutíu til sextíu manns og við teljum okkur hafa góða yfirsýn yfir hvernig ástandið er og teljum þetta raunhæfa tölu út frá þeim forsendum sem við miðum við.“

Í hnotskurn
Í Gistiskýli Reykjavíkurborgar er pláss fyrir 16 einstaklinga. Í Konukoti, sem rekið er af Rauða krossi Íslands, er pláss fyrir átta konur í gistingu. Þá eru ýmis önnur úrræði í boði fyrir heimilislausa, bæði þá sem enn eru í neyslu og þá sem eru að koma úr meðferð.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert