Ráðhúshjól keypt á Selfosi

Gott getur verið að grípa til reiðhjóla þegar eldsneytisverð er …
Gott getur verið að grípa til reiðhjóla þegar eldsneytisverð er hátt.

Meirihluti bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar samþykkti í vikunni að verja 140 þúsund krónum til að kaupa tvö reiðhjól og reiðhjólahjálma sem verði til afnota á vinnutíma fyrir starfsfólk ráðhúss bæjarins.   

Í tillögu bæjarráðsfulltrúa meirihlutans segir, að sveitarfélagið leggi áherslu á að hvetja og styðja starfsfólk sitt til aukinnar hreyfingar og heilbrigðra lífshátta. Þá sé það í anda aukinnar umhverfisvitundar almennings og samræmist vel áherslum núverandi meirihluta um að bæta búsetuskilyrðin í Árborg. Starfsfólk Ráðhússins þurfi oft að fara skemmri og lengri leiðir innanbæjar á Selfossi vegna verkefna sinna og með þessu fyrirkomulagi er leitast við að gefa kost á vistvænni, einfaldari og heilsusamlegri leið en þeirri að nota bifreiðar.

Samkvæmt tillögunni verður tilnefndur  sérstakur umsjónarmaður „ráðhúshjólanna" og settar verða reglur og leiðbeiningar um umgengni og notkun hjólanna. Um sé að ræða tilraunaverkefni til 6 mánaða og ef vel takist til verði stigið skrefinu lengra og fleiri stofnunum gefinn kostur á að hafa „ráðhúshjól" til afnota fyrir sína starfsmenn. 

Fulltrúi minnihluta bæjarráðs sat hjá í atkvæðagreiðslu og lét bóka að  hann telji hæpið að bæjarsjóður kaupi og reki „ráðhúshjól" fyrir starfsmenn, enda verði kostnaður mun meiri en ef einstaklingar kæmu með sín hjól.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert