Jón Karl Ólafsson, forstjóri flugfélagsins JetX, vísar ummælum Sigrúnar Jónsdóttir, formanns Flugfreyjufélags Íslands, í Morgunblaðinu í gær til föðurhúsanna og segir engan fót fyrir þeim. JetX hafi ekki gert kjarasamning við Flugfreyjufélagið og eigi ekki í kjaradeilu við félagið.
Sigrún sagði m.a. að JetX hótaði flugfreyjum og flugþjónum brottrekstri, beint og óbeint, nefndu þau að ganga í Flugfreyjufélagið. Þá hefði yfirflugfreyju JetX verið sagt upp störfum daginn eftir fund hjá Flugfreyjufélaginu þar sem rætt hefði verið um aðildarumsókn starfsmanna JetX.
Jón Karl sagðist ekki vilja ræða mál einstakra starfsmanna JetX í fjölmiðlum, en rangt væri að yfirflugfreyju félagsins hefði verið sagt upp störfum. Rétt væri að einni af almennum flugfreyjum félagsins hefði verið sagt upp en uppsögn hennar hefði átt sér lengri aðdraganda og verið algjörlega ótengd nokkru viðkomandi Flugfreyjufélaginu. Þá hefði viðkomandi starfsmaður ekki verið í neinu forsvari fyrir Flugfreyjufélagið innan JetX.
Jón Karl sagði aðspurður að JetX hefði ekki tekið neina afstöðu til aðildar starfsmanna sinna að Flugfreyjufélagi Íslands.
„Hér á landi ríkir fullt félagafrelsi og fólk getur gert það sem því sýnist í félagsmálum. Við tökum síðan afstöðu til þess hvort við viljum gera kjarasamninga við viðkomandi félög. Við viljum gjarnan að Flugfreyjufélagið haldi sig við kjaradeilur við viðsemjendur sína en við eigum ekki í neinni kjaradeilu við félagið og vísum þessu til föðurhúsanna,“ sagði Jón Karl. Hann sagði að enginn starfsmaður JetX hefði tilkynnt að hann óskaði að greiða félagsgjöld til Flugfreyjufélags Íslands. Það væri fráleitt að halda því fram að JetX hótaði starfsfólki eða hindraði félagafrelsi þess.