Vilja koltrefjar en ekki ál

„Koltrefjar eru klárlega að taka við af áli sem létt byggingar- og styrktarefni enda hefur framleiðsla þeirra tvöfaldast á undanförnum fimm árum,“ segir Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Gasfélagsins, en félagið ásamt Kaupfélagi Skagfirðinga og sveitarfélagsins Skagafjarðar hafa undirritað samkomulag um stofnun undirbúningsfélags um að reisa koltrefjaverksmiðju á Sauðárkróki.

Íslensk atvinnusköpun

Talið er að sextíu störf þurfi til að reka verksmiðjuna og að með afleiddum störfum skapi hún 110-120 störf.

„Þessi hugmynd sýnir að það er hægt að gera fleira en reisa álver og að erlend stórfyrirtæki þurfi ekki að koma að allri atvinnusköpun. Ég er sannfærður um að það eru fleiri góðar svona hugmyndir þarna úti,“ segir Bjarni.

Umhverfisvæn framleiðsla

Áætlað er að heildarfjárfesting verksmiðjunnar sé 4-5 milljarðar en ætlunin er að verksmiðjan afkasti 1500-2000 tonnum af kolefnistrefjum á ári og nýti til þess um 10 MW. Að sögn Bjarna þyrfti verksmiðjan ekki losunarheimildir þar sem útblástur gróðurhúsalofttegunda yrði „langt undir mörkum“.

Hlutverk hins nýstofnaða félags er að hefja undirbúning að stofnun verksmiðjunnar, sem felst m.a. í því að fara í kostnaðargreiningu og að leita samninga um hagstæð orkukaup.

Tólf mánuðir eru áætlaðir í undirbúningsvinnuna og að henni lokinni verður tekin ákvörðun um hvort verksmiðjan verður reist. Ef af því verður er stefnt á að hún hefji störf fyrir næstu alþingiskosningar, að sögn Bjarna. Heildarhlutafé félagsins er 25 milljónir og leggja KS og Gasfélagið til tíu milljónir hvort en sveitarfélagið fimm milljónir.

Tækifæri til eflingar héraðsins

„Í framleiðslu koltrefja sjáum við bæði tækifæri til mikillar eflingar héraðsins og svo hitt, sem er ekki síður mikilvægt, að efla útflutningsframleiðslu þjóðarinnar,“ segir Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS.

„Skagafjörður hefur um nokkurra ára skeið unnið að hugmynd um frekari uppbyggingu trefjaiðnaðar í Skagafirði. Stór þáttur í því hefur verið koltrefjaverksmiðja. Hér er því mikilvægum áfanga náð í þeirri vegferð því aðstæður allar á Sauðárkróki eru mjög góðar,“ segir Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri Skagafjarðar.

Í hnotskurn
Koltrefjar eru byggingarefni í iðnaði og hafa verið notaðar t.d. í flugvélar, reiðhjól, skíði, brýr, hús og fleira. Um er að ræða kolþræði sem fara í gegnum ákveðið ferli og eru m.a. hitaðir upp í 3.000 gráður. Vinsældir koltrefja fara sívaxandi, m.a. vegna léttleika þeirra og styrks, en þær geta komið í stað málma eins og áls og stáls.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert