67,8 prósent þátttakenda í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins segjast nú vilja að ríkisstjórnin hefji undirbúning aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Stuðningurinn er mestur meðal kjósenda Samfylkingar, 87,2 prósent, en minnstur meðal kjósenda Frjálslynda flokksins, 42,9 prósent. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Enginn munur er á afstöðu svarenda könnunarinnar eftir kyni og mjög lítill munur eftir búsetu. Þannig segjast 69,5 prósent svarenda á höfuðborgarsvæðinu vilja að undirbúningur hefjist, en 65,1 prósent íbúa á landsbyggðinni.
Í febrúar spurði Fréttablaðið hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá svaraði 55,1 prósent svarenda spurningunni játandi . Spurningin sem borin varr upp nú var hins vegar ekki hin sama og því eru niðurstöðurnar ekki alveg samanburðarhæfar.