Björn: Vandræðum OR sópað undir teppið

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra mbl.is/Sverrir

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fjallar ítarlega um málefni Orkuveitu Reykjavíkur, REI málið og umfjöllun og umfjöllun borgarfulltrúa og fjölmiðla um það á heimasíðu sinni í dag. Segir hann þar m.a. að vandi OR/REI sé ekki einkamál sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Viðfangsefnið er miklu víðtækara bæði innan lands og utan. Á óheillabrautinni síðastliðið ár var ráðist í samstarfsverkefni í nafni OR/REI, án þess að gerð væri grein fyrir inntaki þeirra opinberlega. Raunar er ekki vitað, hvaða verkefni er hér um að ræða. Hið nýja, sem gerst hefur síðustu daga, er, að innan meirihluta stjórnar OR vilja menn kortleggja og verðmeta þessi verkefni. Er það enn til marks um leyndarhyggju, að þetta skuli ekki allt hafa verið birt stjórninni og borgarstjórn nú þegar," segir hann.

Síðar í grein hans segir: „Þegar litið er til málefna OR/REI ætti öll borgarstjórn Reykjavíkur að læra af sögunni. Hún sýnir, hve vitlaust er að þrjóskast við og böðlast áfram í krafti opinbers fjármagns, þrátt fyrir að hættuljós kvikni. Sá tími á að vera liðinn í borgarstjórn, að þessum vandræðamálum OR sé sópað undir teppið. Hvað með umframkostnaðinn við byggingu OR-hússins? Hvað með linu.net, sem nú heitir gagnaveita, og ekki var seld, á meðan sú tækni þótti einhvers virði? Liklega hefur enginn áhuga á að kaupa gagnaveituna núna, tæknin hefur gert hana úrelta. Hvað með risarækjuna? Eða fyrirtækið, sem átti að framleiða hör? Hvað með fjárfestingar í Hitaveitu Suðurnesja?Hvernig væri, að tekin yrði sú ákvörðun í eitt skipti fyrir öll, að Orkuveita Reykjavíkur einbeitti sér að því að sinna þjónustu við viðskiptavini sína? Beri sjálfstæðismenn í borgarstjórn gæfu til að sameina borgarstjórn um slíka ákvörðun eiga þeir heiður skilinn og þakklæti borgarbúa."  
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka